Rannsókn á erfðum verkja

Sársaukanæmi og sársaukaþol

SÁRSAUKANÆMI

Hvað er sársaukanæmi og hvernig er það mælt?

Sársaukanæmi er mjög einstaklingsbundið. Sumir þola einfaldlega meiri eða minni sársauka en aðrir. Sársauki er flókin tilfinning sem ræðst bæði af líffræðilegum ferlum sem byrja á hvernig taugar í húð eða öðrum líffærum skynja sársauka og bera boð um sársauka til heilans, og síðan hvernig heilinn vinnur úr skilaboðum um sársauka. Fyrri reynsla fólks af sársauka, langvinnir sjúkdómar, slys og áföll geta haft áhrif á sársaukanæmi. Sumir kvíða þannig aðstæðum sem þeir vita að geta valdið sársauka og kvíðinn getur aukið sársaukaupplifunina.

Forsvarsmenn rannsóknar á erfðum verkja hafa með leyfi höfundar (Ruth Ruscheweyh) þýtt spurningalista um sársaukanæmi (Pain Sensitivity Questionnaire, PSQ) sem sýnir ágæta fylgni við aðrar mælingar á sársaukanæmi og sársaukaþoli, og um 5 þúsund þátttakendur rannsóknarinnar hér á landi á aldrinum 20-75 ára hafa þegar svarað. Svör þátttakenda mynda skor (PSQ-skor) sem endurspegla sársaukanæmi þeirra. Niðurstöður sem þátttakendur fá við lok svörunar spurningalistans, segja til um hvernig þeirra sársaukanæmisskor er í samanburði við aðra Íslendinga af sama kyni og aldri.

 

Hvernig er sársaukaþol mælt?

Sársaukaþolsmælingarnar felast í tvennu:

› Að kanna hversu lengi þú þolir að halda hönd (upp að úlnlið) í 3°C köldu vatnsbaði, og

› Að kanna hversu mikinn uppblásinn þrýsting þú þolir á kálfavöðva.

Mælingarnar sjálfar taka aðeins um 10-15 mín og þátttakandi hefur fulla stjórn á því hvenær mælingu er hætt, annaðhvort með því að draga höndina upp úr kalda vatninu eða að ýta á hnapp til að losa strax um þrýsting á kálfavöðva. Sumir finna lítið fyrir þessum áreitum, á meðan aðrir finna meira til. Þátttakendur verða beðnir um að gefa upplifun sinni einkunn á verkjaskala þar sem 0 er enginn verkur og 10 mesti verkur sem þátttakandi getur ímyndað sér.

Felst einhver áhætta í rannsókninni?

Í sársaukamælingum getur falist að fólk finni fyrir sársauka í stutta stund eða þar til það annaðhvort ákveður sjálft að hætta mælingunni eða starfsmenn rannsóknarinnar ljúka rannsókninni eftir tilsettan tíma. Þátttakendur hafa fulla stjórn á hvenær mælingum er hætt, annaðhvort með því að taka hönd sína upp úr vatninu, eða ýta á hnapp sem stöðvar þrýstinginn á kálfavöðvann. Í báðum tilvikum hættir áreitið strax og sársaukinn, ef einhver er, hverfur mjög fljótt. Yfir 25 þúsund einstaklingar í Noregi og 4 þúsund í Hollandi hafa undirgengist þessar sömu mælingar án vandkvæða. Heilbrigðismenntað starfsfólk rannsóknarinnar í ÞR sem hafa fengið sérstaka þjálfun, framkvæma rannsóknina og læknir er ávallt í ÞR á meðan á mælingunum stendur, skyldu einhver mjög sjaldgæf atvik koma upp.

Ef þú ert með sár á höndum eða fótum, með mikinn bjúg, hefur nýlega orðið fyrir slysi eða áverka eða ert með sjúkdóm sem gerir það að verkum að þú ert mjög viðkvæm(ur) fyrir kulda eða þrýstingi á vöðva, ættir þú ekki að undirgangast sársaukaþolsmælingarnar. En þér er frjálst að svara spurningalistanum, án þess a undirgangast mælingarnar.

Önnur möguleg áhætta samfara þátttöku í rannsókninni er ekki önnur en sú sem tengist meðferð persónuupplýsinga. Fyllsta trúnaðar verður gætt, en rannsóknaraðilar eru bundnir trúnaði og þagnarskyldu varðandi upplýsingar sem þú veitir.

Fylgt verður lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og skilmálum Persónuverndar vegna rannsóknanna. Engin persónuauðkenni verða sett á sýni eða upplýsingar sem send eru Íslenskri erfðagreiningu heldur verða kennitölur dulkóðaðar. Sending sýna úr landi til frekari mælinga eða greininga er möguleg, en yrði án persónuauðkenna og einungis að fengnu leyfi Vísindasiðanefndar.