Mótefnamælingar fyrir SARS-CoV-2

SARS-CoV-2 er veiran sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Til þess að finna virkt smit er yfirleitt notað próf sem leitar að ummerkjum um lifandi veiru í strokum úr hálsi og nefholi. Mótefnamælingar eru mest notaðar til að finna ummerki um sýkingu sem hefur gengið yfir.

Það eru til mörg mismunandi mótefnapróf fyrir SARS-CoV-2. Það er mikilvægt að átta sig á því að ekkert þessara prófa er fullkomið og til að túlka niðurstöður úr þessum prófum er nauðsynlegt að þekkja vel eiginleika prófanna, sérstaklega sértæki þeirra og næmni.

Sértæki er mat á hversu margir sem hafa ekki fengið veiruna mælast þrátt fyrir það með mótefni gegn henni. Sértækni upp á 99.8% þýðir að tveir af hverjum þúsund prófuðum einstaklingum sem ekki hafa smitast munu mælast með mótefni.

Næmni er hins vegar mat á hversu margir sem hafa fengið veiruna mælast með mótefni. Næmni upp á 93% þýðir að 930 af hverjum þúsund prófuðum einstaklingum sem hafa smitast munu mælast með mótefni en 70 munu ekki mælast með mótefni.

Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að einstaklingar sem telja sig hafa sýkst af SARS-CoV-2 og/eða mældust á einhverjum tímapunkti með jákvætt veirupróf mælast ekki með mótefni: a) Viðkomandi gæti sannarlega hafa sýkst af SARS-CoV-2 en myndaði ekki mótefni. b) Viðkomandi gæti sannarlega hafa sýkst af SARS-CoV-2 og myndaði mótefni en það mældist ekki með mótefnaprófinu sem var notað. c) Viðkomandi er ekki búinn að sýkjast af SARS-CoV-2 og hið jákvæða veirupróf var svokallað falskt jákvætt próf.

Við hjá Íslenskri erfðagreiningu höfum notað tvö próf til að mæla hvort mótefni eru til staðar hjá fólki. Annars vegar pan-Ig anti-S1-RBD próf (framleitt af Wantai) og hins vegar pan-Ig anti-N próf (framleitt af Roche). Hvort um sig hafa þessi próf sértækni upp á 99.8% og næmni upp á 93%. Við prófuðum sex mismunandi próf áður en við völdum þau tvö sem við notum. Hin prófin höfðu ekki ásættanlega sértækni eða næmni.

Þegar niðurstöður úr mismunandi mótefnaprófum eru bornar saman þá getur verið misræmi í svörum (annað jákvætt en hitt neikvætt) vegna mismunandi eiginleika prófanna. Þá getur verið erfitt að vita hvor niðurstaðan er réttara nema upplýsingar um sértæki og næmni prófanna liggi fyrir.

Það er einnig eðlilegt að sjá litlar sveiflur í niðurstöðum mótefnamælinga en þetta gerir það að verkum að ef mælingin er á mörkum þess að vera jákvæð eða neikvæð, þá geta niðurstöður úr endurteknum mótefnamælingum með sama prófinu sveiflast á milli þess að vera gefnar sem jákvæðar og neikvæðar. Í þessum tilvikum er ekki alltaf augljóst hvernig túlka skal niðurstöðuna.

Enn sem komið er er ekkert sem bendir til að mótefnasvar einstaklinga minnki innan sex mánaða frá smiti. Hvernig mótefnasvar þróast til lengri tíma og hvaða áhrif það hefur á líkurnar á að smitast aftur af SARS-CoV-2 er ekki hægt að fullyrða að svo stöddu vegna þess í hve skamman tíma veiran hefur borist milli manna.