Rannsókn á SARS-CoV-2 veirunni og COVID-19 sjúkdómnum sem hún veldur

Rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar, Landspítala, Embættis landlæknis og Sóttvarnalæknis.

Fyrsta tilfellið af COVID-19 á Íslandi greindist 28. febrúar 2020 en sjúkdómsins varð fyrst vart í heiminum í Kína í lok árs 2019. COVID-19 er öndunarfærasjúkdómur og algengustu einkennin virðast vera hósti, hiti og beinverkir. Ýmsum öðrum einkennum hefur þó verið lýst, m.a. tapi á bragð- og lyktarskyni og meltingarfæratruflunum. Tilgangur þessa spurningalista er meðal annars að skilja sjúkdómsmynd COVID-19 betur.

Í eftirfarandi spurningalista er spurt um almennt heilsufar þitt, hvort þú hafir smitast af sjúkdómi sem minnir á COVID-19 og hvaða einkenni þú fékkst. Spurt er um sjúkdóm sem „minnir á COVID-19“ vegna þess að við vitum að ekki allir með grun um sjúkdóminn fengu greininguna staðfesta. Þannig að ef þú hefur fengið sjúkdóm sem var ekki staðfestur sem COVID-19 en einkennin voru svipuð og er lýst fyrir COVID-19 eða þú hafðir aðra ástæðu til að halda að þú gætir verið með COVID-19, þá biðjum við þig um að svara eins og þú hafir fengið sjúkdóminn.

Það er mikilvægt að fá svör frá sem flestum, einnig frá þeim sem eru hraustir og hafa ekki fengið sjúkdóm sem minnir á COVID-19.

Vinsamlega svaraðu samkvæmt bestu getu. Þér er frjálst að sleppa því að svara einstökum spurningum eða spurningalistanum í heild.

Farið verður með öll svör sem trúnaðarmál samkvæmt reglum Persónuverndar.

Ef þú þarfnast aðstoðar eða vilt gera athugasemdir við spurningalistann veitir starfsfólk rannsóknarinnar í Þjónustumiðstöð rannsóknaverkefna nánari upplýsingar í síma 520-2800.