Mótefnamælingar fyrir SARS-CoV-2

SARS-CoV-2 er veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Til þess að finna virkt smit er yfirleitt notað próf sem leitar að ummerkjum um lifandi veiru í strokum úr hálsi og nefholi. Mótefnamælingar eru bæði notaðar til að finna ummerki um sýkingu sem hefur gengið yfir og ónæmissvar við bólusetningu.

Það eru til mörg mismunandi mótefnapróf fyrir SARS-CoV-2. Ekkert þessara prófa er fullkomið og til að túlka niðurstöður úr prófunum er nauðsynlegt að þekkja vel eiginleika þeirra, sérstaklega sértækni þeirra og næmni.

Sértækni er mat á hversu margir sem hafa hvorki fengið veiruna né verið bólusettir mælast þrátt fyrir það með mótefni gegn henni. Sértækni upp á 99.8% þýðir að tveir af hverjum þúsund prófuðum einstaklingum sem hafa hvorki smitast né verið bólusettir munu mælast með mótefni.

Næmni er hins vegar mat á hversu margir sem hafa fengið veiruna eða verið bólusettir mælast með mótefni. Næmni upp á 99% þýðir að 990 af hverjum þúsund prófuðum einstaklingum sem hafa smitast eða verið bólusettir munu mælast með mótefni en 10 munu ekki mælast með mótefni.

Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að mótefni mælast ekki hjá einstaklingum sem telja sig hafa sýkst af SARS-CoV-2 og/eða mældust á einhverjum tímapunkti með jákvætt veirupróf, og hjá einstaklingum sem hafa verið bólusettir: a) Viðkomandi gæti sannarlega hafa sýkst af SARS-CoV-2 og/eða verið bólusettur en ekki myndað mótefni. b) Viðkomandi gæti sannarlega hafa sýkst af SARS-CoV-2 og/eða verið bólusettur og myndað mótefni en þau mældust ekki með mótefnaprófinu sem var notað. c) Of stuttur tími er liðinn frá því að viðkomandi sýktist eða var bólusettur til að mótefni hafi náð að myndast í nægjanlega miklu magni til að mælast. d) Viðkomandi hefur hvorki sýkst af SARS-CoV-2 né verið bólusettur og hið jákvæða veirupróf var svokallað falskt jákvætt próf.

Við hjá Íslenskri erfðagreiningu notum tvö próf til að mæla hvort mótefni eru til staðar hjá fólki og  hve magn þeirra er mikið; annars vegar próf sem mælir heildarmótefni gegn bindiseti broddpróteins SARS-CoV-2 veirunnar (pan-Ig anti-S1-RBD próf), sem hefur 98.8% klíníska næmni (14 dögum eftir bólusetningu) og 99.91 % sértækni, hins vegar próf sem mælir heildarmótefni gegn kjarnapróteini veirunnar (pan-Ig anti-N próf), sem hefur 97-100% klíníska næmni (eftir 14 daga eða meira frá PCR staðfestri sýkingu) og 99.80% sértækni. Við prófuðum nokkur önnur mótefnapróf áður en við völdum þessi tvö, en þau hafa betri sértækni og næmni en hin sem við prófuðum.

Með því að mæla mótefni gegn bæði kjarnapróteini og broddpróteini SARS-CoV-2 veirunnar má greina hvort einstaklingur hafi smitast af veirunni, þá hefur hann bæði mótefni gegn kjarnapróteini og broddpróteini, eða hvort hann hafi verið bólusettur en ekki smitast, þá hefur hann bara mótefni gegn broddpróteininu. Mótefni gegn broddpróteininu eru talin mikilvægust fyrir vernd gegn smiti og gegn veikindum af völdum COVID-19.

Jákvætt mótefnapróf gegn gegn kjarnapróteini veirunnar (pan-Ig anti-N próf) þýðir að þú hafir 1.0 einingar mótefnamagns eða hærra þegar sýnið var tekið og að þú hafir smitast af SARS-Co2 veirunni.

Jákvætt mótefnapróf gegn bindiseti broddpróteins veirunnar (pan-Ig anti-S1-RBD próf) þýðir að þú hafir 0.8 einingar mótefnamagns eða hærra þegar sýnið var tekið. Ekki er ljóst hve há mótefnin þurfa að vera til að einstaklingur sé verndaður gegn COVID-19 sjúkdómnum eða gegn SARS-CoV-2 veirusmiti. Mæling á mótefnamagni með pan-Ig anti-S1-RBD prófinu sýnir góða fylgni við magn hlutleysandi mótefna, sem hindra að veiran sýki frumur mannsins.  Aðrir þættir ónæmissvars hafa líka áhrif á vernd gegn smiti og sjúkdómi. 

Vernd bóluefnanna sem gefin eru hérlendis er 67-95% gegn COVID-19, breytilegt eftir bóluefnum og hópum einstaklinga. Þeir sem eru í helstu áhættuhópum fyrir að veikjast alvarlega, þ.e. aldraðir og fólk með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma, svara bólusetningum líka oft verr en þeir sem eru ungir og hraustir. Öll bóluefnin veita yfir 90% vernd gegn alvarlegu COVID-19, sjúkrahúsinnlögn og dauða.

Ljóst er að magn mótefna sem þarf til að vernda gegn smiti eða COVID-19 sjúkdómi er breytilegt eftir því hvaða afbrigði veirunnar á í hlut. Þannig verndar bólusetning minna gegn Delta afbrigði SARS-CoV-2 veirunnar en fyrri afbrigðum, en enn verr gegn Ómíkron afbrigðinu. Ljóst er að örvunarskammtur (þriðji skammtur) eykur vernd gegn bæði Delta og Ómíkron afbrigðinu verulega.

Hvernig mótefnasvar þróast til lengri tíma og hvaða áhrif það hefur á líkurnar á að smitast af hinum ýmsu afbrigðum SARS-CoV-2 veirunnar eftir bólusetningu með mismunandi bóluefnum eða aftur af SARS-CoV-2 sýkingu er ekki hægt að fullyrða.